Heim

Velkomin á vef um ASKINN, verðlaun í íslensku matarhandverki, fyrst veitt árið 2019 á Hvanneyri.

Fréttir

MARGT UM MANNINN Á MATARHÁTÍÐ Á HVANNEYRI

Fjölmennt var á Matarhátíð á Hvanneyri síðastliðinn laugardag. Áætlað er að minnst 500 manns hafi sótt viðburðinn og ber sá fjöldi gott vitni um að matarhandverk er vinsælt og vekur athygli!  Matarmarkaður var á staðnum þar sem um 20 aðilar seldu vörur sínar, en framleiðendur komu bæði af Vesturlandi og víðar að. Á Kránni voru seldar …

Um

Askurinn – Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki 2019 er þróunarverkefni að sænskri fyrirmynd, þar sem keppnin byggir mikið á reynslu og reglum frá  Eldrimner í Svíþjóð, sjá: https://www.eldrimner.com/evenemang/41558.sm_i_mathantverk_2019.html

Matarauður Vesturlands sem er áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vesturlands átti frumkvæði að því að halda þessa keppni í ár og fékk til liðs við sig Markaðsstofu Vesturlands og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri til að sjá um undirbúning, kynningu, markaðssetningu og verðlaunaafhendingu fyrir ASKINN 2019 – íslandsmeistarakeppni í matarhandverki – sem haldin var á Matarhátíð á Hvanneyri 23.11.2019.

Þetta er í fyrsta sinn sem haldin er íslandsmeistarakeppni í matarhandverki þar sem allar keppnisvörurnar eru íslenskar. Áður hafði Matís staðið fyrir matarhandverkskeppni 2014 í samstarfi við Ný norræn matvæli (Ny Nordisk Mad).  Þá kepptu 110 vörur frá öllum Norðurlöndunum og keppt var í 8 matvöruflokkum og hafði Matís kynnt það verkefni fyrir Vestlendingum. Því var ákveðið að prófa hvort ekki væri ástæða til að koma á fót séríslenskri Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki.

Matarauður Íslands styrkti þetta verkefni – ASKINN 2019 -íslandsmeistarakeppni í matarhandverki –  sem gerði það mögulegt að semja við Matís að sjá um allt faglegt utanumhald með keppninni sjálfri, þar sem Matís hafði reynslu af því að hafa haldið slíka keppni og átti staðfærðar reglur frá keppnishaldinu í Svíþjóð. Matís sá því um öll samskipti við keppendur, þ.e. skráningu, móttöku og úttekt á keppnisvörum, auk þess að fá fagdómara til að meta hvern vöruflokk, halda utanum dómarastörf, tilkynna vinningshafa og senda öllum keppendum faglegt mat á gæðum keppnisvara sem sendar voru til keppni.

ASKURINN – einkennis- og verðlaunamerki keppninnar var hannað af Önnu Melsteð í Anok margmiðlun ehf. í Stykkishólmi.

Í keppninni í ár – ASKURINN 2019 – kepptu 133 íslenskar matarhandverksvörur allsstaðar að af landinu í 10 keppnisflokkum og 22 framleiðendur fóru heim með verðlaun. Nú veltur það á aðstandendum og hagaðilum keppninnar hvernig tekst til að halda merki keppninnar á lofti til að gera þessa keppni – ASKINN – íslandsmeistarakeppni í matarhandverki að þeirri lyftistöng sem henni var ætlað að vera til að efla gæði, kynningu, framleiðslu og sölu á íslensku matarhandverki. Það veltur líka á viðtökum allra aðila hvort ástæða þykir til að halda keppnina aftur og þá með hvaða hætti það verður gert. Það er mikilvægt að allir vinni saman að áframhaldandi þróun þessa verkefnis.

Hafa samband